5.3.2007 | 23:44
Nýtt pólitískt afl
Það var mikið um að vera í henni pólitík um helgina. Sexhundruð Framsóknarmenn tóku saman höndum og réru lífróður til bjargar eigin skinni og settust svo á búnaðarþing á eftir. Ómar tilkynnti margboðað morð með yfirlýsingu um Frjálslyndamiðhægrigrænaframboðið, enn bólar þó lítið á framboðslistum. Eldriborgarar og aðrir þiggjendur kerfisins ætla í framboð þó er bara einn listi kominn fram (var von á öðrum?). Enn hélt áfram umræðan um virkjanir og nýtt stækkað álver í Hafnarfirði. Bæjarstjórinn þar er ekki enn búinn að gera upp hug sinn en er samt fúll að fá ekki skattinn fyrir árið 2004, ef hann fer ekki að ákveða sig fær hann ekki skattinn heldur fyrir 2014. Allt í allt mikið um að vera.
Mín tilfinning fyrir auknu fylgi við VG í Suðurkjördæmi hefur verið staðfest og að því er virðist nokkuð á kostnað Fálkaflokksins. Þetta áréttar það sem ég hef verið að segja sellu félögum mínum, að fylgið sé nokkuð að fara af einum pólitíska vængnum á annan. Ég finn hjá mér kenndir í þessum málum sem má kenna við "Frjálslyndamiðhægrigræna" nema hvað ég vil virkja upp til heiða en ekki í byggð en þeir hvorugt. Kannski ég eigi séns á þingsæti ef ég býð Frjálslyndamiðhægrigrænum krafta mína, ég er jú niðurbrotinn eftir að mér var hafnað af Fálkunum í Suðurkjördæmi, ég þetta girnilega seiði!
Ég er orðinn nokkurskonar pólitískt eyland, ekki virkjana óður (soyja mokka latteið af kaffihúsunum er farið að síast inn), ekki endurfæddur vinstrimaður (sem grænn), skipti aldrei um skoðun (passa því ekki í Samfylkinguna), ekki þröngsýnn með Xenophobiu og hef frá sextán ára aldri verið nettó skattgreiðandi.
Ég er kominn út í horn eða út á Horn og neyðist því til að bjóða fram minn eigin lista.
Lista: Rétthentaútskeifalandsbyggðarmannabúsettaíreykjavíklistann!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.3.2007 kl. 13:26 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.