9.12.2008 | 09:00
Umræða / Áróður
Mjög skrýtin áróðursfrétt um hugsanlega aðild að Sambandi Evrópu var á Stöð2 nú í kvöld. Þar sagði Baldur Þórhallsson að Íslendingar hefðu tekið upp 20 af 33 samningsatriðum sem semja þyrfti um og þar af leiðandi værum við nánast komin inn. En hvaða þrettán smáatriði eru þetta sem við eigum eftir að semja um, nú er ég ekki sérfræðingur um Sambandsmál og verð því að skrifa eftir textanum sem hljóp hratt yfir skjáinn:
11. Landbúnaður og byggðaþróun.
12. Matvælaöryggi, flutningur dýra og plantna.
13. Sjávarútvegur.
15. Orka.
16. Skattamál.
17. Efnahags- og peningamálastefna.
22. Svæðisbundin stefnumál og samræming þróunarsjóða.
24. Réttlæti, frelsi og öryggi.
29. Tollabandalög.
30. Alþjóðasamskipti.
31. Utanríkis-, öryggis- og varnarmálastefna.
32. Fjármálaeftirlit.
33. Fjármála- og fjárlaga ákvæði.
Fréttamaðurinn Telma Tómasson og Baldur hljómuðu bæði eins og þau væru leikendur í infomercial (samblanda af auglýsingu og upplýsingu) fyrir Sambandið.
Atriðin sem eru nefnd hér að ofan eru nú engin smá atriði sem við myndum rumpa af til að klára samning eða eins og hefði verið sagt 2007, kíla á dílinn. Allt eru þetta grundvallaratriði tilvistar okkar eins og Orkan og Sjávarútvegurinn, alþjóðasamskipti og utanríkismál.
Ég tek þó eftir einu atriði á þessum lista þar sem ég þykist vita að við höfum tekið upp flestar reglur Sambandsins og það eru reglur fjármagnsmarkaðarins, góðar reglur það...
Meðfylgjandi er linkur í fréttina og ég hvet alla lesendur síðuna til að hlusta á fréttamanninn og viðmælandann og lesa á sama tíma listann yfir atriði sem eftir á að semja um. Spyrjið síðan ykkur sjálf hvort þetta séu minniháttar mál sem eftir á að semja um.
Virk umræða um ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Satt bezt að segja fær maður hálfpartinn magann yfir ómerkilegheitunum í ófáum áróðursmönnum Evrópusambandsins hér á landi. Um árabil héldu Evrópusambandssinnar því fram að við værum að taka yfir um 70-80% og upp í 90% af lagasetningu Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn, þ.m.t Baldur Þórhallsson og meira að segja kemur þetta fram í a.m.k. einni af bókum hans um Evrópumálin.
Þegar skrifastofa EFTA í Brussel sýndi hins vegar fram á með sérstakri úttekt vorið 2005 að aðeins 6,5% af lagasetningu sambandsins hefði fallið undir EES-samninginn á þeim áratug sem hann hefði verið í gildi brugðust Evrópusambandssinnar, þ.m.t. Baldur Þórhallsson, við með því að segja að eitthvað prósentuhlutfall segði ekkert í þessum efnum heldur væri það vægi hverrar lagagerðar fyrir íslenzkt samfélag sem skipti máli.
Það er mikið til í þessu (enda var úttekt EFTA aðallega fengin til þess að afhjúpa fáránlegan áróður Evrópusambandssinna) en þetta sáu Evrópusambandssinnarnir hins vegar aldrei ástæðu til þess að minnast einu orði á þegar þeir voru að telja fólki trú um að við værum að taka upp mikinn meirihluta lagasetningar Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn. Þurfti úttekt EFTA til þess að þeir sæu ljósið?? Og þarna erum við ekki sízt að tala um menn sem gjarnan hafa skreytt sig með nafnbótinni "sérfræðingur í Evrópumálum". Ljóst er að sérfræðiþekkingin hefur þar algerlega vikið pólitískum hagsmunum viðkomandi.
Núna er áróðurinn sá að hugsanlegar aðildarviðræður við Evrópusambandið muni verða svo auðveldar og stuttar af því að við höfum þegar samið um svo marga málaflokka við sambandið með t.d. EES-samningnum og Schengen-samstarfinu. Þessir aðilar, þá ekki sízt títtnefndur Baldur Þórhallsson, segja að það séu ekki nema einhverjir 13 málaflokkar eftir af um 33. Einhver tittlingaskítur eftir. Málið nánast frágengið. En hvað er það sem á eftir að semja um? Það eru svo sannarlega engin smámál eins og kemur fram í færslunni hér að ofan.
Og hvar er Baldur núna og aðrir Evrópusambandssinnar til þess að segja að eitthver hlutfall skipti engu máli í þessu sambandi heldur vægi hvers málaflokks fyrir íslenzkt samfélag? Hvergi. Það hentar þeim ekki að benda á þá staðreynd. Hitt hljómar svo dæmalaust mikið betur áróðurslega séð. Enda eru þessir einstaklingar auðvitað fyrst og síðast í pólitík hvað sem þeir kunna að hafa menntað sig í.
Hjörtur J. Guðmundsson, 9.12.2008 kl. 09:48
Og verður Herskylda? Eitthvað hef ég heyrt um það?
Verður sameiginlegur Evrópuher?
Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 9.12.2008 kl. 10:15
Eiginlegar aðildarviðræður við Evrópusambandið yrðu aðeins forsmekkurinn ef til þeirra kæmi. Eðlilega væri ekki hægt að semja um annað í þeim en hvernig Evrópusambandið liti út þá. Ef af aðild yrði héldu aðildarviðræðurnar í raun áfram um allar framtíðarákvarðanir sambandsins nema hvað að þá hefði Ísland nánast ekkert um málin að segja enda þá bundið á klafa þeirrar meginreglu Evrópusambandsins að vægi hvers aðildarríkis fari fyrst og síðast eftir fólksfjölda.
Ef það yrði þannig tekin ákvörðun um almenna herskyldu innan sambandsins á einhverjum tímapunkti eftir að af aðild Íslands yrði gætum við ólíklega komizt undan henni. Nema við óskuðum eftir undanþágu gagnvart því í aðildarsamningi og fengjum það samþykkt sem ég held að Evrópusambandið myndi ólíklega samþykkja.
En hvað með allt það sem sambandið kann að taka upp á á komandi árum og við höfum ekki hugmynd um hvað verði? Hvernig eigum við að verja okkur gagnvart því? Svarið við því er einfalt, við getum það ekki.
Aðild að Evrópusambandinu er í raun bezt lýst sem óútfylltum tékkum sem við gefum út og verðum svo að vona að sambandið setji ekki of stórar upphæðir á.
Hjörtur J. Guðmundsson, 9.12.2008 kl. 10:28
Einar Solheim, 9.12.2008 kl. 11:19
Það þarf engar aðildarviðræður við Evrópusambandið til þess að mynda sér skoðun á því hvort aðild að því sé æskileg. Við getum fyrir það fyrsta gefið okkur fyrirfram að ráðamenn Evrópusambandsins muni fara eftir lögum og sáttmálum sambandsins ef til aðildarviðræðna við Íslendinga kæmi.
Við getum fyrirfram vitað að íslenzkur sjávarútvegur yrði ekki tekinn út fyrir sviga í aðildarviðræðum við Evrópusambandið og að stjórn sjávarútvegsmála við Ísland yrði færð til Brussel. Það eru einungis fáeinir dagar síðan stækkunarmálastjóri Evrópusambandsins sagði í samtölum við íslenzka fjölmiðla að varanlegar undanþágur væru ekki í boði í sjávarútvegsmálum og að Íslendingar þyrftu að aðlaga sig að sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins ef til aðildar að því kæmi, ekki öfugt.
Við getum fyrirfram vitað að vægi Íslands innan Evrópusambandsins tæki mið af fólksfjölda hér á landi og að sá mælikvarði yrði okkur seint hagfelldur.
Við getum vitað fyrirfram að við gætum ekki staðið utan þróunar Evrópusambandsins í átt að einu ríki sem lítið vantar upp á í dag.
O.s.frv.
Allt eru þetta nægar ástæður til þess að sjá að tilgangurinn með aðildarviðræðum við Evrópusambandið er enginn. Það er einungis fyrirsláttur, eða til marks um vanþekkingu á viðfangsefninu, þegar talað er um að ekkert sé hægt að vita um þessi mál án þess að fara í aðildarviðræður.
Hjörtur J. Guðmundsson, 9.12.2008 kl. 11:24
Það er svo furðulegt með marga þá sem vilja svo mjög í Evrópusambandið að þeir hafa kvartað sáran um árabil að engin umræða sé um Evrópumálin, þó fáir málaflokkar ef einhverjir hafi verið ræddir og rannsakaðir eins mjög á liðnum árum og blessuð Evrópumálin og þá alveg sérstaklega hvað hugsanleg aðild að Evrópusambandinu kynni að hafa í för með sér. En þegar þeim er bent á óþægilegar staðreyndir sem þeir vita ekki hvernig þeir eiga að bregðast við kemur gjarnan fram ásökun um að þeir sem ekki vilja í Evrópusambandið séu ekki að ræða málin, tja eða séu að semja við sjálfa sig.
Það liggur einfaldlega fyrir að það verður ekki samið um nein grundvallaratriði. Ekkert sem máli skiptir. Aðildarviðræður við Evrópusambandið eru ekki einhverja opnar samningaviðræður þar sem hægt er að semja um allt. Samningssvigrúmið í aðildarviðræðum við sambandið er einfaldlega afskaplega þröngt ef eitthvað eins og m.a. Evrópunefnd forsætisráðherra komst að raun um.
Evrópunefndin komst m.a. að því að aðildarviðræður eru í raun eins og tossalisti, fyrst er merkt við þau aðildarskilyrði sem umsóknarríkið uppfyllir þegar og síðan ganga viðræðurnar út á það hversu langan aðlögunartíma ríkið þarf til þess að uppfylla afganginn. Svona er þetta nú bara. Það þarf engar aðildarviðræður til þess að vita hvað yrði í boði af hálfu Evrópusambandsins, hvaða kostir aðild að því fylgdu og hvaða gallar. Það liggur í langflestum tilfellum fyrir ef ekki öllum. En það þarf að hafa fyrir því að kynna sér málin.
Margir virðast halda að hugsanlegur aðildarsamingur við Evrópusambandið hefði öll svörin um því hvað aðild hefði í för með sér, kosti og galla. Þess vegna verði að fara í aðildarviðræður til að fá þessa hluti á hreint. En þetta er hrein fjarstæða.
Í fyrsta lagi, sem fyrr segir, liggur þegar fyrir að langflestu leyti hvað aðild myndi hafa í för með sér.
Í annan stað kæmi margt einfaldlega ekki fram í slíkum aðildarsamningi sem þykir skipta miklu máli. T.d. stæði ekki í honum að Evrópusambandið myndi tryggja lágt verðlag á Íslandi um alla framtíð eða yfir höfuð eða lága vexti. Enda getur sambandið það ekki, ekki frekar en að tryggja gott veður á Íslandi.
Í þriðja lagi má ekki gleyma því að Evrópusambandið er fyrirbæri í stöðugri þróun, aðallega í átt að einu ríki. Aðildarviðræður við Evrópusambandið gætu aðeins tekið til þess hvernig sambandið virkar og lítur út í dag eins og ég nefndi hér að ofan. Hinar eiginlegu aðildarviðræður yrðu aðeins forsmekkurinn. Það gleymist nefnilega oft að taka framtíðina inn í dæmið þegar rætt er um Evrópumálin. Ýmsir virðast hreinlega halda að við gætum bara gengið í Evrópusambandið og eftirleiðis myndi sambandið ekkert breytast. En það er í stöðugri þróun sem áður segir, í átt að einu ríki. Og undan þeirri þróun yrði t.d. ekki vikist ef gengið yrði í Evrópusambandið.
Lykilatriðið í þessu öllu er þó að kynna sér málin. En því miður nenna margir því ekki og telja að aðildarsamningur við Evrópusambandið leysti þá undan þeirri kvöð. Svo eru það Evrópusambandssinnarnir sem kalla eftir aðildarviðræðum á sömu forsendum, þ.e. að fá þurfi hlutina á hreint, vegna þess að þeir vilja svo mjög í Evrópusambandið, ekki vegna þess að þeir viti ekki hvernig kaupin gerast á eyrinni. Það vita þeir vel, eða vissu a.m.k. ef þeir nenntu að kynna sér málin.
Það má að lokum minna á ítrekuð ummæli Evrópusambandssinnans Össurar Skarphéðinssonar sem sagði eftir að hafa starfað í Evrópunefnd forsætisráðherra (sem lauk störfum í marz á síðasta ári) að ekki þyrfti frekari rannsókna við á kostum og göllum Evrópusambandsaðildar. Þetta lægi allt saman fyrir. Sem er alveg kórrétt hjá honum.
Það er enginn hræddur við eitt eða neitt mér vitanlega. Það eru hins vegar margir sem telja algerlega tilgangslaust, peninga- og tímasóun að fara út í aðildarviðræður við Evrópusambandið þegar ljóst er fyrirfram að ekki muni fást ásættanleg niðurstaða sem hentaði hagsmunum Íslendinga.
Hjörtur J. Guðmundsson, 9.12.2008 kl. 11:29
Um marga þessara málaflokka eru ESB ríkin sammála um að ESB hafi sem minnst að segja nema með einföldum víðum meginreglum. Til að breyta því þarf samþykki allra aðildaríkjanna fyrir hvern málaflokk.
Þ.e. öll ríkin hafa neitunarvald um upptöku nýrrar stefnu. Þar á meðal við ef við gengjum inn. Grunnurinn að sameiginlegri stefnu er að um sameiginlegt viðfangsefni sé að ræða en að sérstök viðfangsefni sé farið með eins nærri vettvangi og unnt er. Það hefur eflt mjögs veitastjórnarstigið og í mörgum landanna.
Helgi Jóhann Hauksson, 9.12.2008 kl. 17:31
Allskyns hugmyndir og tillögur heyrast frá allskyns flokkum, stjórnmálamönnum og áhugamönnum í ESB og örugglega bæði frá hernaðarsinnum og afvopnunarsinnum enda eiga allar raddir Evrópu þar aðkomu, en ESB tekur hvorki upp hlutverk hernaðarbandalags né neina aðra stefnu nema með samþykki allra ríkjanna - hvert um sig hefur neitunarvald um það.
- Að ESB taki upp herskyldu sem ekki er nú í neinu landanna í dag er fulkomlega galin áróður galinna hræðslu- og haturs-áróðursmanna
Helgi Jóhann Hauksson, 9.12.2008 kl. 18:00
Helgi:
Þú ert alltaf með hlutina á hreinu sé ég. Er herskylda ekki í neinu aðildarríkja Evrópusambandsins í dag? Það vill raunar svo til að hún er til staðar nokkrum þeirra, í Þýzkalandi, Austurríki, Grikklandi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi.
Ertu enn þeirrar skoðunar að Færeyingar hafi verið hluti af Evrópusambandinu? :)
Hjörtur J. Guðmundsson, 10.12.2008 kl. 09:46
Ég hef reyndar haft það fyrir reglu í nokkra mánuði að svara þér ekki Jón Frímann enda veit ég að það er ólíklegt að þú takir einhvern tímann rökum að fenginn reynslu. En mig langar að gefa þér það heilræði að lesa þér til um þessi mál, ég mæli með hinni þverpólitísku skýrslu Evrópunefndar forsætisráðherra (ath. unnin af fulltrúum bæði Evrópusambandssinna og sjálfstæðissinna). Þetta er tiltölulega stutt og læsileg skýrsla. En sjálfsagt er það mikil óskhyggja hjá mér að þú munir gera það.
Hjörtur J. Guðmundsson, 10.12.2008 kl. 17:51
Einar Solheim, 13.12.2008 kl. 20:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.