14.12.2008 | 17:04
Endurnýjun / Endurnýting
Nú um stundir er stöðugt kallað eftir endurnýjun á forvígismönnum í stjórnmálum og í viðskiptalífinu. Mikið er hrópað, út með ...., burt með .... en aldrei hef ég heyrt hrópað inn með ...., ráðum .... Það sem ég staldra við, er aðferðin sem beita þarf til að endurnýjun verði í fremstu stöðum.
Ég er þáttakandi eins og áður hefur komið fram, í flokkstarfi Sjálfstæðisflokksins, er þar dindill skv. skilgreiningu Egils Helgasonar. Þetta er hin eiginlega grasrót, fólk úr öllum stigum og stéttum samfélagsins sem myndar Sjálfstæðisflokkinn.
Það eru ekki alltaf mikil tengsl milli grasrótarinnar og hinna pólitísk kjörnu fulltrúa og stundum minnir starfið meira á góðgerðarsamtök en stjórnmálaflokk. Á tímum, eins og núna og þegar 100 daga meirihlutinn tók við í Reykjavík, hverfa sumir stjórnmálamenn af sjónarsviðinu og birtast svo aftur þegar um hægist. Margir kjörnir fulltrúar taka aldrei þátt í starfi flokksins nema sem starfsmenn borgaranna á þingi eða í sveitastjórnum. Þannig hafa margir komist áfram í stjórnmálum án þess að hafa nokkru sinni tekið þátt í starfi flokksins heldur einungis hlotið frama í prófkjörum og eða sem launaðir starfsmenn í stjórnkerfinu.
Hlutverk grasrótarinnar er m.a. að standa fyrir prófkjörum, uppstillingum eða öðrum aðferðum sem stilla upp á lista flokksins fyrir kosningar. Nú er margt sem bendir til að kosið verði fyrr en ella til Alþingis, ef ekki vegna stjórnarslita þá til að endurnýja umboð núverandi ráðamanna til að semja við Sambandið. Þá er vert að huga að því hvernig endurnýjun, sem svo mikið er kallað eftir, færi fram. Á þessari síðu hefur til skamms tíma verið skoðanakönnum um hvort undirritaður ætti að huga að framboði í komandi prófkjörum, niðurstaða er ekki jákvæð. Það kemur mér svo sem ekki á óvart, síðast þegar ég tók þátt í prófkjöri fyrir alþingiskosningar árið 2006 var mér hafnað, Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi völdu fremur Árna Johnsen og Árna Mathiesen en undirritaðan.
Þannig yrði það einnig núna þó svo ég eða aðrir óþekktir með lítinn aðgang að fjölmiðlum og fjármagni reyndum okkur við framboð. Flokksmenn (í öllum flokkum) velja þá sem eru þekktir og munu ekki hleypa nýjum röddum að án þess að þær hafi heyrst lengi ergo, engin endurnýjun.
Í grasrótinni sem ég starfa innann Sjálfstæðisflokksins sjáum við nokkuð stór hópur manna og kvenna um að kosningamaskínan vakni þegar á þarf halda. Þar sem nú er líklegra en hitt að kosningar verði innann skamms, hefur þessi maskína verið sett á standby og er að verða tilbúin að kveikt verði á. Þá er aftur okkar tími og þá er gaman.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.