Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
11.3.2007 | 12:09
Setjum Framsókn í stjórnarskrá
Það sem gerðist merkilegast í vikunni var sérstak útspil Framsóknar í Stjórnarskrármálinu og snilldarleg viðbrögð stjórnarandstöðunnar við eina af myndmerkingum tilvistarvanda Framsóknar. Siv hefur áreiðanlega ekki gert sér grein fyrir því hvernig mál myndu þróast og er henni nokkur vorkunn af. Það hefur sannarlega ekki orðið flokk hennar til framdráttar hvernig mál hafa þróast og alls ekki henni enda miðað við nýjustu könnun verður líkur hennar starf sem þingmaður í vor (í bili). Enn og aftur sýnir Geir hvað hann er góður taktíker" með ágætri tillögu um viðbótar við stjórnarskrána enda nokkuð í anda pistils sem ég setti hér á síðuna í vikunni. Össur sýndi svo ekki verður um villst hvað hann er mikið hæfari stjórnmálamaður en Ingibjörg og greinilega man enginn hver varaformaður flokksins er, en það getur ekkert bjargað Samfylkingunni héðan í frá. Viðbrögð soya latte" bandalagsins voru síðan mjög fyrirsjáanleg enda ekki við því að búast að Þeir gætu gert nokkuð annað en að vera á móti.
Nú er að líða að hópflugi Fálkanna og eru málefnanefndir að fara kynna tillögur að að ályktunum. Það verður sennilega mestur áhugi á Umhverfis og Samgönguályktunum. Í síðasta hópflugi varð mest deilt um Reykjavíkur flugvöll en mig grunar að um annað verði deilt í þetta sinn og að samframboðsmanni mínum herra Ísland" takist að koma göngum til Vestmannaeyja þar inn. Fundur um mitt áhugasvið, fisk, verður nú líkast til fámennur enda varla í tísku þrátt fyrir stjórnarskrárumræðu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.3.2007 kl. 23:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2007 | 09:10
Össur talar og talar og talar og ta.......
Hlustaði á Össur á Rás 2 í morgun, það var skelfilegt að hlusta á manninn. Hann fór vítt um vanda ríkistjórnarflokkana og í lok viðtalsins var hann kominn í miklar framtíðarpælingar og ég er ekki frá því að hann hafi verið kominn í ríkistjórn í lok viðtals. Ég hef nú bara ekki heyrt annað "spinn" út í buskann. Ég er þeirrar skoðunar að málefnalega eiga Fálka og Krataflokkarnir mest sameiginlegt og ríkisstjórn þeirra yrðu stefnuföst og góð. En þá er ég ekki búinn að hugsa út í fólkið sem á að sinna þessari stefnufestu, þá lítur málið öðruvísi út.
Það verður að viðurkennast að enn virðast sjávarútvegsmálin ætla að dúkka upp sem aðalmál fyrir kosningar, þó svo enginn hafi talað fisk í fjögur ár. Þarna erum við Fálkaflokksmenn enn og aftur að láta ná okkur í bólinu með næst sætustu stelpunni af ballinu (eða þá næst sætasta stráknum, eftir hvort við viljum). Við hefðum átt að taka frumkvæðið, vera með tillögur til úrbóta á brotalömum í kerfinu, styrkja innlenda framleiðslu, markaðssókn og hleypa af stað vinnu við umhverfismerki. En svona er nú lífið.
Ég trúi því að þegar kemur að kosningum þá muni fólk fara að horfa á þá einstaklinga sem það kýs til að leiða þjóðina. Ég er ekki viss um að Össur verði einn af þeim sem heillar.
6.3.2007 | 12:02
Ekki sérreglur
Enn og aftur á að setja sjávarútveg einhverja sérskilmála. Hvað með aðrar auðlindir þjóðarinnar sem sumar hverjar eiga uppruna sinn í landi í eigu ríkisins eins og fallvötnin. Eða orka úr iðrum jarðar og annað sem sækja má þangað. Afhverju eru ekki sett ákvæði um farfuglastofna í stjórnarskrá, eða lax sem gengur úr Atlantshafinu upp í árnar. Er þetta allt ekki sameign þjóðarinnar.
Allir aðilar innan sjávarútvegs vilja að það sama gildi um hann og annan iðnað í landinu. Við sem störfum í honum erum í samkeppni við aðrar þjóðir á mörkuðum erlendis og á atvinnumarkaði hér. Það má ekki þrengja frekar að þessum iðnaði til að öll vinnsla flytjist ekki til Kína eða á láglaunasvæði annarstaðar í heiminum. Vill Steingrímur J og félagar hans í soya laté bandalaginu, að tólf ára barn í Pakistan sé að vinna fiskinn úr Skjálfandanum frekar en hann sé unninn í hátækni matvælavinnslufyrirtæki á Norðaustur horninu.
Áfram reynt að ná samkomulagi um auðlindamál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.3.2007 | 23:44
Nýtt pólitískt afl
Það var mikið um að vera í henni pólitík um helgina. Sexhundruð Framsóknarmenn tóku saman höndum og réru lífróður til bjargar eigin skinni og settust svo á búnaðarþing á eftir. Ómar tilkynnti margboðað morð með yfirlýsingu um Frjálslyndamiðhægrigrænaframboðið, enn bólar þó lítið á framboðslistum. Eldriborgarar og aðrir þiggjendur kerfisins ætla í framboð þó er bara einn listi kominn fram (var von á öðrum?). Enn hélt áfram umræðan um virkjanir og nýtt stækkað álver í Hafnarfirði. Bæjarstjórinn þar er ekki enn búinn að gera upp hug sinn en er samt fúll að fá ekki skattinn fyrir árið 2004, ef hann fer ekki að ákveða sig fær hann ekki skattinn heldur fyrir 2014. Allt í allt mikið um að vera.
Mín tilfinning fyrir auknu fylgi við VG í Suðurkjördæmi hefur verið staðfest og að því er virðist nokkuð á kostnað Fálkaflokksins. Þetta áréttar það sem ég hef verið að segja sellu félögum mínum, að fylgið sé nokkuð að fara af einum pólitíska vængnum á annan. Ég finn hjá mér kenndir í þessum málum sem má kenna við "Frjálslyndamiðhægrigræna" nema hvað ég vil virkja upp til heiða en ekki í byggð en þeir hvorugt. Kannski ég eigi séns á þingsæti ef ég býð Frjálslyndamiðhægrigrænum krafta mína, ég er jú niðurbrotinn eftir að mér var hafnað af Fálkunum í Suðurkjördæmi, ég þetta girnilega seiði!
Ég er orðinn nokkurskonar pólitískt eyland, ekki virkjana óður (soyja mokka latteið af kaffihúsunum er farið að síast inn), ekki endurfæddur vinstrimaður (sem grænn), skipti aldrei um skoðun (passa því ekki í Samfylkinguna), ekki þröngsýnn með Xenophobiu og hef frá sextán ára aldri verið nettó skattgreiðandi.
Ég er kominn út í horn eða út á Horn og neyðist því til að bjóða fram minn eigin lista.
Lista: Rétthentaútskeifalandsbyggðarmannabúsettaíreykjavíklistann!
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.3.2007 kl. 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2007 | 17:57
Göng um Lónsheiði
Göng um Lónsheiði eru komin á vegaáætlun og er það vel enda leysa þau af hólmi þennan erfiða veg sem fyrir einhver mistök var gerður og hefur aldrei verið til friðs. Á sýnum tíma var Lónsheiðin erfið yfirferðar og þar var oft ófært vegna snjóa og vatnavaxta en að sama skapi gríðarlega falleg leið með fallegum bergmyndunum (að vísu er allt fallegt í Lóni). Nokkur ár voru skíðalendur Hornfirðinga í Lónsheiði enda hafa skíðaáhugamenn á þessu landshorni þurft að elta skaflana sem færðust milli fjalla.
Hvalnesið og leiðin um það hefur einhvernvegin orðið útundan í umræðu um vegabætur undanfarinna ára þar til núna. Má þar um kenna að þetta horn landsins er án fulltrúa á Alþingi sem sér um að úthluta fé og forgangsraða til vegamála. Ekki hafa málin skánað eftir síðustu kjördæmabreytingu þegar mörk Suður og Norðaustur kjördæma liggja um Hvalnesið og því er vegurinn orðin vandalaus.
Nú hefur orðið breyting á, góðir menn með nýjan leiðtoga Fálkamanna í Suðurkjördæmi hafa komið göngunum á blað. Þetta verður framkvæmd sem nýtist öllum Íslendingum sem eiga leið austur á land til að njóta nyrðri hluta Vatnajökulsþjóðgarðs og þeirra sem hafa gaman að njóta þess að dást af mannvirkjum við nafnamínshnjúka eða mótmæla þar.
Snjóflóðahætta í Hvalnesskriðum afstaðin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.3.2007 | 10:09
Ekkert eignarnám!
Ég hef verið nokkuð hugsi um fyrirhugaðar virkjanir í neðrihluta Þjórsár. Það er áhugavert að fylgjast með umræðunni í fjölmiðlum annarsvegar og það sem "heimafólk" segir hinsvegar. Fjölmiðlar birta myndir af miklum baráttufundum þar sem er fullsetinn bekkurinn af áköfum andstæðingum. Heimamenn segja mér, þetta eru mest sessunautar þínir af kaffihúsunum í 101, enda ef rýnt er í myndir frá fundunum þá er það rétt. Þetta er mest sama fólkið sem mótmælti Ráðhúsinu við Tjörnina.
Getur verið, að þessu hópur atvinnumótmælenda sé að skemma fyrir andstæðingum í "sveitinni", að andlit þeirra, kalli á harðari viðbrögð þeirra sem vilja keyra málið í gegn. Enn og aftur er okkur hinum sem erum hugsi yfir þesskonar framkvæmdum stillt upp við vegg. Ert þú með eða á móti?
Ég er hlynntur þessari framkvæmd en ekki skilyrðislaust. Landsvirkjun á ekki að geta reiknað með að ríki og dómstólar samþykki í sjálfvirkri aðgerð eingarnám lands sem fer undir uppistöðulón og mannvirki. Þeir verða að semja og kaupa upp það land sem þeim vantar, ef einhver vill ekki selja sama hvaða verð þá á viðkomandi rétt á því. Það er engin þjóðfélagsleg neyð sem knýr á að ríkið taki landið af réttmætum eigendum þess og afhendi það Landsvirkjun.
Eignaréttinn eigum við Fálkaflokksmenn að verja, líka fyrir okkur sjálfum.
Tugir athugasemda vegna Þjórsárvirkjana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2007 | 15:31
Fyrsti hægrimaðurinn forseti.
Verður Sarkósý fyrsti hægrimaðurinn sem forseti. Samkvæmt minni greiningu á frönskum stjórnmálum eru allir franskir stjórnmálamenn sósíalistar. Meira segja Le Penn er það einnig hann vill bara sósíalisma fyrir hvíta Frakka en ekki aðra. Sarkósý var mikill frjálshyggjumaður á sínum yngri árum en hefur mildast nokkuð með árunum. Hann hefur á síðustu árum sem innanríkisráðherra náð miklum árangri í löggæslu málum með því að framfylgja gildandi lögum og ekki gefa eftir gagnvart minnihlutahópum eins og allir hans fyrirrennarar. Dauðaslysum í umferðinni hefur fækkað um tuttugu prósent en Frakkar áttu Evrópumet í dauðaslysum eða yfir sexþúsund á ári. Þarna er maður sem lætur verkin tala.
Sarkozy með forskot á Royal samkvæmt skoðanakönnun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2007 | 16:28
Arðurinn greiddur á morgun.
Á morgun 1. mars fær almenningur enn eina uppskeruna af góðærinu sem við höfum lifað við undanfarinn áratug, virðisauki af matvælum lækkar um helming vörugjöld verða felld niður af fjölmörgum vöruflokkum. Eins og alltaf eru flest allir vinstrimenn á móti skattalækkunum, ég er eiginlega hissa að Forsetinn skuli ekki skerast í leikinn. Það er jú verið að taka til baka, hluta af því mikla verki sem hann vann sem fjármálaráðherra við skattahækkanir.
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að ríkið þyrfti að fara að leiðrétta þann mun sem er á skattheimtu einstaklinga annarsvegar og fyrirtækja hinsvegar. Það var rétt að byrja á að lækka á fyrirtæki enda leysti það úr læðingi (ásamt öðru) mikinn kraft og aukin skattskil en nú er tími kominn til að lækka á einstaklinga og ekkert er betra en að lækka gjöld á matvæli. Sú breyting sem verður á matarverðinu kemur fólki með lág laun mun betur en 2000 krónu hækkun á persónuafslætti.
En í ljósi þess að nú fer að líða að kosningum spyr ég ykkur: Hverjir hafa mótmælt þessum lækkunum? Svarið er: vinstrimenn, og ástæðan jú einhverjir smá eða heildsalar gætu grætt pening með því að lækka ekki strax. Hvílíkur glæpur! Mikið betra að ríkið steli þessum peningi af okkur!!!
27.2.2007 | 18:14
Vinstri Grænt Hægri Snú !
Það má lengi velta sér upp úr nöfnum stjórnmálaflokka. Sjálfur tilheyri ég einum sem ég kýs að nefna Fálkaflokkinn af því að nafn hans á ekki lengur jafn mikið erindi og áður, við fengum jú sjálfstæði (frá Dönum) fyrir rúmum sextíu árum. Annar er Framsóknarflokkur, sem sennilega var á sínum tíma boðberi mikilla framfara en hefur undanfarna áratugi breyst í íhaldsflokk, kannski af því að hann hefur sömu skoðanir og fyrir 90 árum. En flokksnafnið sem mest er að þvælast fyrir mér þessa dagana er Vinstri - Grænir.
Í kvikmyndinni "Með allt á hreinu" var aðal hetjan Harpa Sjöfn, oft var hún kölluð báðum nöfnum oftast þó fyrra nafninu en aldrei Sjöfn. Vinstri - Grænir hafa einhvern vegin komist upp með að merkja sig einungis sem grænir sem er stórmerkilegt því þau eru meira vinstri en græn. Og ég er klár á því að ef þeir komast til áhrifa verður þeirra ekki minnst sem græna flokksins heldur sem vinstri flokksins.
Í nýlegum skoðanakönnunum hefur VG fengið 20% fylgi og ætti því að fá tólf þingmenn, jafnvel þrettán. Það er því áhugavert að sjá hverjir fá þau þingsæti. Hvort það séu þeir sem alla tíð hafa varið umhverfið með orðum sem og gerðum, mæta á hjóli eða með strætó á landsfundi flokksins, eða hvort það séu vinstrimenn, aðallega ættaðir úr bandalagi alþýðu.
Í mjög óvísindalegri könnun sem ég gerði á hverjir myndu fá þingsætin tólf hjá þessum svo misskilda flokki kom í ljós að af tólf væntanlegu þingmönnum voru tíu vinstri (tengd Alþýðubandalagi) og tveir grænir, þær munu ekki hafa komið á hjóli.
27.2.2007 | 17:17
Þvert um geð...
Eftir miklar yfirlýsingar við fólk um áhugaleysi á bloggi er ég byrjaður.
Ég geri þó ekki ráð fyrir að endast lengur en til kosninga enda ætla ég einungis að skrifa um pólitík án þess að skilgreina hana þröngt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)